Neytendaréttur

Viðskiptavinurinn hefur ekki alltaf rétt fyrir sér en þó eru til ýmis lög sem efla réttindi neytenda.

Hér að neðan eru lög sem skipta neytendur máli.

Samningalögin

Ekki er leyfilegt að nota skilmála sem einhliða gagnast seljanda á kostnað neytanda. Þetta getur til dæmis átt við um ósanngjarna skilmála í kaup- og leigusamningum eða ábyrgðaryfirlýsingum og pöntunareyðublöðum.

Lög um húsgöngu- og fjarsölu

Þessi lög eiga við um það þegar einstaklingar panta vörur með pósti, á Netinu, í síma eða í gegnum annars konar fjarsölu. Húsgöngusala fellur einnig undir þessi lög en þau kveða meðal annars á um það hvaða upplýsingar seljanda ber að veita kaupanda og um skilarétt og skilafrest. Þegar keypt er fjármálaþjónusta hefur neytandinn 30 daga skilarétt og ef keyptar eru aðrar vörur eða þjónusta hefur hann 14 daga skilarétt.

Lög um netverslun

Þessi lög eiga við um verslun á Netinu og taka bæði til fyrirtækja og neytenda. Lögin fela meðal annars í sér kröfu um aðgengi neytenda að samningsskilmálum ásamt upplýsingum um þau tæknilegu skref sem þarf að stíga til að gera samning.

Neytendalögin

Eiga við þegar einstaklingur kaupir vöru af fyrirtæki, t.d. í verslun. Lögin taka m.a. til réttinda neytandans ef vara reynist gölluð eða ef afhending dregst.

Lög um lánsviðskipti

Þessi lög eiga að tryggja að neytandi fái að vita raunkostnað við lánsviðskipti, t.d. við bankalán, raðgreiðslur eða yfirdrátt. Hægt á að vera að gera samanburð á mismunandi lánsviðskiptum auk samanburðar á lánsviðskiptum og staðgreiðsluviðskiptum.

Lög um neytendavernd í þjónustuviðskiptum

Þessi lög eiga við þegar einstaklingur lætur inna af hendi vinnu við eitthvað sem hann á, t.d. þegar gert er við bifreið eða iðnaðarmaður er ráðinn. Lögunum er ætlað að verja neytendur við meðal annars viðgerðarvinnu, t.d. viðhald á heimili á borð við smíðavinnu og málningarvinnu. Þau geta einnig átt við um geymslu, t.a.m. ef loðfeldinum sem settur var í geymslu yfir sumartímann hefur verið stolið.  

Lög um fjárhagsráðgjöf til neytenda

Lögin um fjárhagsráðgjöf til neytenda segja til um hvernig fyrirtæki skuli bera sig að þegar þau veita þér fjárhagslega ráðgjöf. Þau kveða meðal annars á um hæfi ráðgjafans og að öll ráð sem þér eru veitt skuli vera skráð.

Lög um markaðssetningu

Staðhæfingar og loforð sem sett eru fram í auglýsingum skulu vera sönn og seljandi skal geta fært á þau sönnur. Villandi og ósannar auglýsingar geta verið bannaðar.

Lög um pakkaferðir

Samkvæmt þessum lögum er það á ábyrgð ferðaskipuleggjanda að upplýsingar í bæklingum og blöðum séu skýrar og skiljanlegar. Fram skulu koma upplýsingar um verð, áfangastað, ferðir, aðbúnað, máltíðir, ferðaáætlanir, greiðsluskilmála og fleira.

Lög um ferðaábyrgð

Á við um pakkaferðir eða flutning í tengslum við pakkaferðir. Lögin eiga að veita lágmarksvernd ef ferðin fellur niður af einhverjum ástæðum, t.d. ef ferðaskrifstofan hefur orðið gjaldþrota.

Ábyrgð vegna ófyrirséðra atburða

Lög um verðupplýsingar

Kveða á um að neytendur fái réttar og skýrar verðupplýsingar um vörur. Lögin eru svokölluð rammalög sem verða útfærð nánar með fyrirmælum og samningum við viðeigandi hagsmunasamtök.

Lög um vöruöryggi

Þessum lögum er ætlað að vernda neytendur gegn hættulegum vörum og þjónustu. Aðeins er leyfilegt að selja öruggar vörur og þjónustu. Neytendastofa Svíþjóðar getur bannað hættulegar vörur og þjónustu.

Nánari upplýsingar má nálgast á www.konsumentverket.se, www.arn.se.