Evrópuréttur

Helsti tilgangurinn með ESB er að samþætta lönd Evrópu smám saman og búa til sameiginlegan markað sem byggist á fjórfrelsinu (frelsi til flutninga fólks, varnings, þjónustu og fjármagns). Aðildarríki ESB hafa því að einhverju leyti afsalað sér sjálfsákvörðunarrétti sínum og veitt stofnunum ESB vald til að setja lög (reglugerðir, tilskipanir og ákvarðanir) sem ganga framar löggjöf viðkomandi ríkis.

Réttindi innan ESB

Evrópurétturinn felur ekki bara í sér réttindi og skyldur fyrir aðildarríki heldur einnig reglur er varða einkaaðila og fyrirtæki. Réttarkerfi aðildarríkjanna á að sjá til þess að þessum reglum sé rétt framfylgt. Þú getur því gert þá kröfu að stjórnvöld í aðildarríkjum ESB gæti réttinda þinna í samræmi við Evrópuréttinn. Ef þú telur að ESB-ríki brjóti gegn settu ákvæði eða meginreglu í Evrópurétti geturðu kært það til framkvæmdastjórnar ESB. Þetta getur átt við um ákvæði í settum rétti (laga og annarra reglugerða) eða framkvæmd á einhverju sviði. Þú þarft ekki að sanna að þú eigir lögmæta hagsmuni. Þú þarft ekki heldur að sanna að brotið sem þú kærir hafi bein áhrif á þig. Til þess að framkvæmdastjórnin geti tekið kæru þína fyrir verður hún að taka til brots gegn Evrópulögum af hálfu aðildarríkis. Hún getur því ekki tekið til einkaágreinings.

Evrópudómstóllinn

Dómstóll Evrópusambandsins nefnist Evrópudómstóllinn (ekki skal rugla honum saman við Mannréttindadómstól Evrópu).

Evrópudómstóllinn hefur tvenns konar meginverkefni: að dæma í deilum á milli aðildarríkja og stofnana ESB ásamt því að túlka lög sambandsins. Dómstóllinn fer því með dómsvald í Evrópusambandinu og sér til þess, í samstarfi við dómstóla aðildarríkjanna, að Evrópulögum sé framfylgt og að túlkun þeirra sé samræmd.

Dómstóllinn er skipaður einum dómara frá hverju aðildarríki sem njóta aðstoðar átta aðallögmanna. ESB-dómstóllinn hefur aðsetur í Lúxemborg og samanstendur af þremur dómstólum: dómstólnum ásamt almenna dómstólnum og starfsmannadómstólnum sem eiga að létta undir með honum með rækslu ákveðinna verkefna. Einstaklingar og fyrirtæki geta aðeins leitað til Evrópudómstólsins ef stofnanir ESB hafa tekið ákvörðun sem hefur bein áhrif á þá. Þeir skulu þá snúa sér til almenna dómstólsins.

Nánari upplýsingar er að finna á eftirfarandi tengli:

http://ec.europa.eu/eu_law/introduction/treaty_sv.htm